Sifja- og erfðaréttur

Dánarbú
Almennt
Við andlát einstaklings verður til dánarbú sem tekur við fjárhagslegum skyldum og réttindum hins látna. Andlát þarf að tilkynna til sýslumanns eins fljótt og mögulegt er. Sýslumaður fer með forræði dánarbúsins frá því að andlát á sér stað og þar til skipti dánarbúsins hefjast. Á meðan að dánarbúið er í höndum sýslumanns mega erfingjar engar ráðstafanir gera með eignir dánarbúsins, aðeins sýslumaður má gera ráðstafanir með eignir dánarbúsins.
Þegar andlátstilkynning hefur verið send til sýslumanns mun hann gefa út heimild til erfingja til að greiða útfararkostnað af bankareikningum dánarbúsins og til að afla upplýsinga um fjárhag dánarbúsins.
Innan fjögurra mánaða frá andláti þurfa erfingjar að taka ákvörðun um skipti dánarbúsins. Þar eru fjórar leiðir færar.
1. Lýsa því yfir við sýslumann að búið sé eignalaust eða eignir dugi aðeins fyrir útfararkostnaði.
2. Maki sækir um leyfi til setu í óskiptu búi og tekur þar með fulla sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku.
3. Erfingjar óska sameiginlega um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og taka þar með fulla sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku.
4. Erfingjar krefjast opinberra skipta á dánarbúinu og taka þar með enga ábyrgð á þeim skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku.

Erfingjar
Um arf er kveðið í erfðalögum og/eða erfðaskrá.
Lögerfingjar geta verið maki, börn hins látna eða afkomendur þeirra, foreldrar hins látna, systkin hins látna eða afkomendur þeirra, afi og amma hins látna og börn þeirra. Sama á við um kjörforeldra og kjörbörn sem hafa verið ættleidd. Af lögerfingjum eru maki og börn hins látna eða afkomendur þeirra skylduerfingjar skv. erfðalögum. Sama á við um ættleidd kjörbörn. Bréferfingjar eru þeir einstaklingar eða lögaðilar sem taka arf skv. erfðaskrá. Á milli sambúðarfólks í óvígðri sambúð er ekki erfðaréttur en sambúðarfólk getur arfleitt hvort annað með erfðaskrá. Ef börn eða aðrir afkomendur eru til staðar má aðeins ráðstafa 1/3 hluta eigna með erfðaskrá.
Erfingi getur hafnað arfi að hluta eða öllu. Skriflegri yfirlýsingu um höfnun arfs þarf að skila til sýslumanns, sem undirrituð er af erfingja í viðurvist tveggja votta. Erfingi getur einnig ákveðið að höfnun arfs gildi fyrir afkomendur sína, sem taka myndu arf í hans stað ef hann væri látinn.
Erfingi getur afsalað sér arftökurétti í hendur þeim, sem hann á arfsvon að, að hluta eða öllu leyti. Yfirlýsing um slíkt þarf að vera undirrituð af arfleifanda og erfingja. Ef annars er ekki getið í yfirlýsingunni, skuldbindur afsal afkomendur þess, er afsalar sér arfi, eins og hann sjálfan.
Erfðaskrá
Erfðaskrá er skriflegur, formbundinn löggerningur um ráðstöfun eigna eftir andlát eða með fyrirframgreiddum arfi.
Ýmis skilyrði er að finna í erfðalögum um arfleiðsluhæfi, form erfðaskrár og vottun undirritunar. Mælst er til þess að arfleiðandi fái aðstoð lögfræðings við gerð erfðaskrár og í tilfelli afturköllunar hennar eða breytinga á ákvæðum hennar.
Ef einstaklingur á hvorki maka né afkomendur má hann ráðstafa hluta eða öllum eignum sínum með erfðaskrá. Hins vegar ef maki eða afkomendur eru til staðar, má arfleiðandi eingöngu ráðstafa 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá.
Þá geta hjón ákveðið í erfðaskrá að það sem lengur lifir hafi heimild til setu í óskiptu búi svo lengi sem það óskar. Í erfðaskrá er hægt að ákveða að arfur, þar á meðal skylduarfur, skuli vera séreign í hjúskap erfingja.
Óskipt bú
Eftirlifandi maki getur óskað eftir leyfi til setu í óskiptu búi. Þetta á eingöngu við ef eftirlifandi maki og hinn látni voru í hjónabandi.
Fylla þarf út umsókn og senda til sýslumanns þar sem m.a. koma fram allar hjúskapareignir og skuldir beggja hjóna á dánardegi, hvar sem þær kunna að finnast. Með umsókninni þurfa að fylgja bankayfirlit og yfirlit skulda ásamt öðrum gögnum eins og t.d. erfðaskrá, kaupmála og yfirlýsingu um samþykki til leyfis setu í óskiptu búi.
Ef hjón eiga séreignir, skal ekki skrá þær á umsókn um leyfið. Ef látni átti séreignir þurfa skipti á þeim að fara fram áður en hægt er að gefa út leyfið.
Í II. kafla erfðalaga er kveðið á um setu í óskiptu búi.
Í 1. mgr. 7. gr. erfðalaga er kveðið á um að eftir lát annars hjóna eigi hitt rétt til setu í óskiptu búi með niðjum beggja nema hið látna hafi mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram.
Þá er kveðið á um það í 1. mgr. 8. gr. erfðalaga að því hjóna sem lengur lifi sé heimilt að sitja í óskiptu búi með ófjárráða niðjum látins maka síns, sem ekki eru niðjar þess, ef sá eða þeir sem fara með forsjá eða lögráð hinna ófjárráða niðja veita samþykki sitt til þess, enda hafi hið látna ekki mælt svo fyrir í erfðaskrá að skipti skuli fara fram. Ef það hjóna sem lengur lifir fer með forsjá eða lögráð ófjárráða stjúpniðja sinna á það þó rétt á setu í óskiptu búi eins og mælt er fyrir um í 7. gr. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að veiti fjárráða stjúpniðjar samþykki sitt til þess sé því hjóna sem lengur lifi heimilt að sitja í óskiptu búi. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um að það hjóna sem lengur lifir eigi rétt á setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum, hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða, án þess að aflað sé samþykkis skv. 1. eða 2. mgr., ef hið látna hefur mælt fyrir um þann rétt í erfðaskrá.
Hvaða eignir falla undir óskipt bú?
Í 1. mgr. 11. gr. erfðalaga er kveðið á um að hjúskapareignir beggja hjóna og séreign, sem skv. ákvæðum laga eða kaupmála skuli hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu, teljist til óskipts bús. Þá skuli sjálfsaflafé og annað verðmæti, sem sá eignast sem situr í óskiptu búi, renna til búsins nema það eigi að lögum að falla til séreignar hans.
Erfðalög nr. 8/1962.
Í erfðarétti gilda erfðalög nr. 8/1962. Í erfðalögum er kveðið á um meginhugtök erfðaréttar. Þau eru erfingi, lögerfingi, skylduerfingi, arfleifandi, arfur, lögarfur, bréfarfur, bréferfingi, dánarbeðsgjöf, dánargjöf, arfleiðsluheimild, arfleiðsluhæfi, erfðaskrá, lífsgjöf.
Erfðir skiptast í I. erfð en þar eru maki og niðjar (börn og barnabörn), II. erfð en þar eru maki arfleifanda, foreldrar og niðjar foreldra, III. erfð en þar eru föðurforeldrar og móðurforeldrar arfleifanda og börn þeirra. Ef enginn framangreindra aðila er til staðar erfir ríkissjóður arfleifanda.
Hverjir eru lögerfingjar?
Í 1. mgr. 1. gr. erfðalaga er að finna skilgreiningu á því hverjir teljast lögerfingjar arfleifanda. Í 1. tölul. eru börn arfleifanda og aðrir niðjar. Í 2. tölul. eru foreldrar arfleifanda og niðjar þeirra. Í 3. tölul. eru foreldrar hvors foreldris arfleifanda um sig og börn þeirra. Í 4. tölul. er maki arfleifanda.
Hvað er I. erfð?
Í 1. mgr. 2. gr. erfðalaga er kveðið á um að maki erfi 1/3 hluta eigna, þegar börn eru á lífi, en börnin erfi 2/3 hluta eigna að jöfnu. Ef arfleifandi á ekki maka, taka börn og aðrir niðjar allan arf.
Hvað er II. erfð?
Í 1. mgr. 3. gr. erfðalaga er kveðið á um að ef arfleifandi eigi enga niðja á lífi, taki maki allan arf. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að ef maka sé ekki til að dreifa falli allur arfur til foreldra að jöfnu. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um að ef báðir foreldrar arfleifanda séu látnir taki börn eða aðrir niðjar hvors foreldris um sig þann arf, sem því hefði borið.
Hvað er III. erfð?
Í 1. mgr. 4. gr. erfðalaga er kveðið á um að ef enginn erfingi, skv. 2. eða 3. gr. sé á lífi, taki föðurforeldrar og móðurforeldrar sinn helming arfs hvort.
Ráðgjöf
Það er alltaf gott að leita sér ráðgjafar varðandi erfðamál.
Maður á alltaf að gera erfðaskrá og eftir atvikum kaupmála í upphafi sambands.
Það er hjálplegt að ræða málin og skilgreina möguleg álitamál sem gætu komið upp.
Niðurstaðan
Það er nauðsynlegt að leita sér ráðgjafar og eftir atvikum aðstoðar þegar andlát á sér stað. Þá er gott að fara yfir öll gögn, upplýsingar og stöðu dánarbús áður en erfingjar taka ákvörðun um skipti þess. Við erum til þjónustu reiðubúin.
skrifstofutímar
Alla virka daga frá – 09:00 til 17:00.
Bóka þarf tíma með tölvupósti.

FBG ráðgjöf ehf.
kt.: 450917-0440
Vsk.: 129215
Hafa samband
Heimilisfang: Súðarvogur 2E.
Sími: 779-0900
Netfang: fbg@fbg.is